plastic-pollution

Plastmengun er vaxandi vandamál í heiminum. Vandamálin sem tengjast þessari mengun eru margþætt, en dýr sem búa við hafið verða oft fyrir miklum áhrifum af plastinu. Að hluta til er plastið vandamál vegna þess að fuglar, fiskar og önnur dýr flækja sig í plasti sem hefur þannig stór áhrif á lífsferil þeirra. Að auki borða dýrin mikið af plasti sem getur þá stíflað meltingarveginn eða það sem er verra með inntöku plastsins verður mikil upptaka á eiturefnum. Plast er í eðli sínu ekkert ósvipað olíum, sem gerir það að verkum að plast og önnur efni í hafinu sem hafa olíu-líka eiginleika bindast oft saman og plastagnir sem sitja í hafinu eru stútfullar af efnum sem í mörgum tilfellum eru eitruð og þá sérstaklega í svona miklu magni.

Við gætum svo sem látið eins og okkur komi vandamálið ekki við þar sem hér gildir bara „survival of the fittest“ en vandamálið snertir okkur beint þegar nýting á fiski og sjófuglum verður beinlínis hættuleg vegna allra eiturefnana sem hafa safnast upp í dýrunum.

Ný rannsókn sem birtist í PNAS nýlega sýnir að mengunin hefur aukist og líkur eru á að hún muni aukast enn meira áður en langt um líður. Í rannsókninni skoðuðu vísindamenn frá CSIRO og Imperial College London magainnihald fulga sem lifa við sjó til að meta hversu mikil áhrif plastmengun hefði á líf þeirra.

Í ljós kom að í 60% fuglanna fannst plast í maga þeirra. Með hliðsjón af sambærilegum rannsóknum sem gerðar hafa verið síðan 1960 spá höfundar greinarinnar því að árið 2050 muni plast finnast í 99% fugla í heiminum. Í dag eru líkur á að 90% fugla hafi einhvern tíman étið plast þó það hafi ekki verið til staðar í maga þeirra þegar rannsóknin var gerð. Verst var útlitið fyrir fugla sem lifa á suðurhvelinu, nálægt Ástraliu og Suður-Afríku og Suður-Ameríku.

Ein leið til að hægja á þróuninni er að almenningu taki sig taki í notkun á plasti, takmarki hana að eins miklu marki og hægt er og endurvinni einnig það sem fellur til. Á sama tíma eru vísindamenn að vinna hörðum höndum að því að finna leið til að brjóta niður plast sem nú þegar hefur komist útí umhverfið.