leadbeater-possum

Pokarottur eru dýr sem ekki er auðvelt að sjá í náttúrunni. Ekki nóg með það að þær eru á ferli á næturnar heldur eru þær góðar í að fela sig og forðast fólk eftir bestu getu. Þetta gerir vísindamönnum erfitt fyrir þegar þeir vilja rannsaka pokarottur. Dan Harely, líffræðingur sem sérhæfir sig í dýrum í útrýmingarhættu, hefur þó fundið lausn á vandamálinu.

Harley getur hermt eftir hljóði pokarotta af tegundinni Gymnobelideus leadbeateri sem svara kallinu og fikra sig í áttina að honum. Einu sinni á ári fer Harley inn á verndarsvæði í Ástralíu (Yellingbo Nature Conservation Reserve) og notar hljóðin til að lokka til sín pokarottur svo hann geti talið þær.

Harley telur pokarotturnar ekki að ástæðulausu. Tegundin er í bráðri útrýmingarhættu og er mikilvægt að geta talið dýrin til að ganga úr skugga um að verndaraðgerðir séu að virka. Harley bendir þó á í samtali við New Scientist að aðferðin sé ekki fullkomin. Pokarotturnar svara ekki alltaf kallinu en aðferðin er samt sem áður góð viðbót við aðrar aðferðir sem notaðar eru við stofnstærðarmatið.

Hér að neðan má sjá myndband af því sem gerist þegar Harley kallar á pokarotturnar.