1058281297

Íbúar Bretlands ráku margir upp stór augu í gær þegar sólin virtist skyndilega hafa breytt um lit. Í stað þess að skarta sínum hefðbundna gula lit var sólin rauð og veltu einhverjir fyrir sér hvort heimsendir gæti jafnvel verið í nánd.

Myllumerkin #redsun og #apocalypse urðu áberandi á samfélagsmiðlum en ekki leið á löngu þar til þessi óvenjulegi atburður var útskýrður á helstu fréttaveitum.

Um er að ræða áhrif frá fellibylnum Ophelia sem gekk yfir Írland í gær. Ophelia, sem átti upptök sín við Azor eyjar, virðist hafa borið með sér sand frá Sahara eyðimörkinni en einnig telur veðurfréttamaður BBC að leifar úr skógareldum í Portúgal og á Spáni hafi einnig flækst með.

Þessir þættir hafa þau áhrif að ljós frá sólu er dreift yfir lengri bylgjulengdir og virðist ljósið því rauðara en við erum vön.

Notendur Twitter hafa að sjálfsögðu grínast með atburðinn og má sjá brot af því besta hér að neðan.