Mynd: James Gibbs

Nýverið skriðu risaskjaldbökuungar af tegundinni Chelonoidis nigra duncanensis úr eggjum sínum á Pinzón eyju í Galapagos eyjaklasanum. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að það hefur ekki gerst í yfir 100 ár.

Þegar landnemar stigu fyrst á Pinzón eyju á 19. öld bárust með þeim rottur sem tóku sér bólfestu á eyjunni. Fram að þessu höfðu skjalbökurnar átt fáa óvini og voru því fremur berskjaldaðar gagnvart rándýrum. Rotturnar nýttu sér varnarleysi þeirra og gæddu sér á skjalbökueggjum og ungum sem varð til þess að skjalbökustofninn féll hratt og brátt var tegundin í útrýmingarhættu.

Sjaldgæft er að hægt sé að snúa við slíkri atburðarás en það tókst þó með skipulögðu framtaki vernunarlíffræðingar á eyjunni. Egg skjalbakanna voru fjarlægð úr hreiðrum þeirra og komið fyrir á öruggum stað þar til ungarnir voru orðnir nógu stálpaðir til að verða ekki rottunum að bráð. Þetta leysti þó ekki vandann til frambúðar og var þess vegna brugðið á það ráð árið 2012 að nota eitur sem eingöngu laðaði að sér rottur. Nýlega var því lýst yfir að Pinzón eyja væri rottulaus og í desember 2014 fann rannsóknarteymi eyjunnar 10 skjalbökuunga. Þeir telja að það sé einungis brot af þeim ungum sem eru í raun á eyjunni og hafa áætlað að yfir 500 skjalbökur séu nú á Pinzón eyju.