screen-shot-2017-05-16-at-21-37-12

Fæstir þekkja Henderson eyju í Kyrrahafinu enda er hún ekki byggð mönnum. Eyjan varð hins vegar nýlega þekkt þegar birt var grein um hörmulegar aðstæður á henni vegna plastúrgangs. Vísindamenn vonast til þess að örlög þessarar fallegu eyju muni vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun sína.

Henderson eyja er staðsett í sunnanverðu Kyrrahafinu í miðjum hafstraumi sem flytur mikin plastúrgang frá bátaumferð og Suður-Ameríku að ströndum hennar. Talið er að um 37,7 milljónir plasthluta séu á ströndum eyjunnar eða um 17 tonn.

Mikið af plastúrgangnum eru einnota umbúðir af mat og drykk sem fólk hefur hent frá sér. Þrátt fyrir afar neikvæð umhverfisáhrif hafa sumar tegundir byrjað að nýta plastúrganginn og hafa krabbar til dæmis komið sér upp heimili í ýmsum ílátum.

Staðan sem komin er upp er sérstaklega sorgleg í ljósi þess að Henderson eyja er á lista UNESCO vegna þess hversu einstakt vistkerfi hennar er.

Rannsóknin var birt í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.