Galapagos sea lion

Í síðustu viku skellti sæljónið Rubbish sér í göngutúr um götur San Francisco, samkvæmt frétt Popsci. Rubbish komst ekki mjög langt en starfsfólk Marine Mammal Center í Sausalito handsamaði hann og kom honum heim í sjóinn á ný.

Þó svo að þetta uppátæki Rubbish kunni í fyrstu að virðast saklaust hafa sérfræðingar áhyggjur en slík hegðun sjávarspendýra verður sífellt algengari. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa að minnsta kosti 1.800 Kaliforníusæljón (Zalophus californianus) strandað í fylkinu. Dýralæknirinn Dr. Shawn Johnson segir að það sem af er ári hafi þurft að bjarga fleiri sjávarspendýrum en yfir allt árið í fyrra.

Talið er að ástæðuna megi rekja til hækkunar á hitastigi sjávar og fæðuskorts í hafinu. Ef hlýnun sjávar heldur áfram má ætla að slíkum tilfellum muni fjölga til muna og eru ofveiði, mengun og hlýnun jarðar þeir þrír þættir sem talið er að hafi mest áhrif.

Hér að neðan má sjá eltingaleikinn við sæljónið Rubbish: