sunny-sand-desert-hiking

Sahara eyðimörkin er stærsta eyðimörk jarðarinnar og hún fer stækkandi. Þar er veðurfarið mjög ýkt, þar sem hitinn getur farið yfir 50°C á daginn en niðurfyrir frostmark á nóttunni. Samt sem áður búa þarna nokkrar milljónir manna af ýmsum þjóðflokkum. Sahara hefur löngum verið talin dæmi þess um hvernig gróðurþekja getur horfið vegna breytinga á náttúrulegri gróðurframvindu samhliða veðurbreytingum.

Í rannsókn sem birt var í Frontiers skoðar vísindamaðurinn David K. Wright uppruna Sahara frá nýju sjónarhorni. Hann skoðar í rannsókn sinni gögn sem sýna breytingar á jarðveginum samhliða gögnum sem sýna hvernig maðurinn hefur flust milli landssvæða.

Þegar gögnin eru keyrð saman sést að samhliða innkomu mannsins með búfénað sinn breytist gróðurþekja svæðanna á þann hátt að gróður lækkar og minnkar. Þegar gróðurþekjann minnkar verða til aðstæður þar sem sólargeislarnir endurkastast frá jörðu og búa til aðstæður fyrir enn frekari hita við jörðina. Þannig minnkar gróðurþekjan enn frekar sem að sama skapi býr til heitari og harðari aðstæður.

Þeim gögnum sem stuðst er við í þessari rannsókn er safnað víðsvegar á svæðinu. Hins vegar er mikilvægt að fá enn betri mynd af gróðurframvindu í eyðimörkinni til að geta sagt til með vissu að eyðimörkin sé manngerð eins og haldið er fram í greininni. Ef rétt reynist er eyðimörkin einstaklega gott dæmi um hvernig maðurinn hefur áhrif á umhverfi sitt og hvaða afleiðingar það getur haft.