Vísindamenn í Kína hafa þróað nýjan stofn hrísgrjóna sem þrífast í söltu vatni. Vonir standa til að hrísgrjónin geti fætt yfir 200 milljónir manns í framtíðinni.

Yuan Longping er sá sem á heiðurinn af hrísgrjónunum en hann hefur verið kallaður guðfaðir hrísgrjónanna vegna vinnu sinnar. Á áttunda áratugnum þróaði Longping fjöldann allan af mismunandi stofnum og er talið að allt að 20% hrísgrjónastofna heimsins séu komnir frá honum.

Nýjasti stofn Longping eru hrísgrjón sem þrífast í saltvatni. Til eru villt hrísgrjón sem vaxa í söltu vatni en þau gefa aðeins af sér um 2.25 tonn á hvern hektara á meðan hrísgrjón Longping eru talin geta gefið 6,5-9,3 tonn á hektara. Hrísgrjónin voru þróuð með kynblöndun, erfðagreiningu og með því að velja út plöntur sem höfðu ákjósanlega eiginleika í ræktun. Ferlið hefur tekið fjölda ára en í sumar kláruðust prófanir á þeim á hrísgrjónaökrum.

Hrísgrjónin eru þegar komin á markað og hafa 6 tonn selst. Eins og er eru hrísgrjónin um átta sinnum dýrari en hefðbundin hrísgrjón en áætlað er að þau munu lækka í verði eftir því sem framboðið eykst.

Það að geta ræktað hrísgrjón í söltu vatni opnar upp möguleika á því að rækta þau víðar en nú er gert. Víða í Kína er erfitt að rækta hrísgrjón vegna seltu í vatni frá vatnsveitum og gætu hrísgrjónin því auðveldað ræktun á slíkum svæðum. Að auki þarfnast ræktun stofninum minni notkunar á eiturefnum þar sem að sýklar og skordýr lifa síður í mikilli seltu.