endemic-gelada

Þótt ótrúlegt megi virðast þá hafa vísindamenn komist að því að eþíópískir úlfar (Canis simensis) og gelada apar (Theropithecus gelada) lifa í sátt og samlyndi í Eþíópíu. Þessi uppgötvun gæti hjálpað okkur að skilja hvernig menn og hundar mynduðu upphaflega tengsl sín á milli.

Eþíópískir úlfar eru sjaldgæfir en tegundin telur aðeins nokkur hundruð dýr. Aðalfæða úlfanna eru lítil spendýr, einkum nagdýr, sem hafa svipað búsvæði og gelada aparnir. Gelada apar lifa í stórum hópum á graslendi í Eþíópíu þeir eru um 200.000 talsins og lifa á afmörkuðu svæði í landinu. Aparnir eru of stórir til að úlfarnir geti veitt þá en afkvæmi þeirra eru efni í góða bráð. Þrátt fyrir þetta sýna aparnir nánast engin viðbrögð þegar úlfur nálgast hóp þeirra og telja vísindamenn að afkoma úlfanna velti á samlífi þeirra við gelada apana.

Í rannsókn sem framkvæmd var við Dartmouth University skoðuðu vísindamenn samskipti gelada apa og úlfanna. Í ljós kom að aparnir létu sem ekkert væri í 68% tilfella þegar úlfur nálgaðist hópinn. Í þau skipti sem aparnir færðu sig frá var yfirleitt aðeins um stutta vegalengd að ræða og greinilegt var að aparnir höfðu ekki áhyggjur af ungviði sínu þegar úlfarnir voru nærri. Þessi hegðun virtist þó einskorðast við eþíópísku úlfana en þegar hundur nálgaðist hópinn varð uppi fótur og fit og aparnir flúðu svæðið.

Fyrst úlfarnir reyna ekki að veiða ungu apana er líklegt að þeir græði eitthvað á því að hafa apahópinn nálægt sér. Niðurstöður rannsóknarinnar staðfestu þetta en þegar úlfarnir veiddu á svæði þar sem gelada apar voru tókst þeim að veiða bráð í tveimur af hverjum þremur tilraunum. Ef engir apar voru á svæðinu tókst veiðin aðeins í eitt af hverjum fjórum skiptum. Ekki er vitað hver ástæða þess er en tilgáturnar eru tvær:

  • Apahópurinn gerir það erfiðara fyrir bráð úlfanna að koma auga á rándýrið.
  • Gelada aparnir fæla nagdýr úr holum sínum svo úlfarnir eiga greiðari leið að þeim.

Líklega eru það ekki eingöngu úlfarnir sem græða á samlífinu. Rannsóknarhópurinn telur líklegast að með því að halda fjölda nagdýra í skefjum minnki það samkeppni á svæðinu svo aparnir hafi meiri fæðu en annars væri.

Höfundar greinarinnar, sem birt var í Journal of Mammalogy, telja að niðurstöðurnar gefi til kynna að eitthvað svipað hafi átti sér stað þegar menn og hundar byrjuðu að sameina krafta sína.