Mynd: C40 Cities
Mynd: C40 Cities

Þeir sem hafa ferðast til Bandaríkjanna minnast margir á ofnotkun Bandaríkjamanna á einnota umbúðum. Mörgum þykir til dæmis frauðplastið óþarflega vinsælt þar í landi, enda er frauðplast sennilega það plast sem verst er fyrir náttúruna. Frauðplast er nefnilega ekki endurvinnanlegt og vegna þess að við mannfólkið göngum oft ansi sóðalega um jörðina okkar þá endar þetta óendurvinnanlega plast að miklu leyti útí sjó eða annars staðar í náttúrunni þar sem það molnar í litlar plastagnir en brotnar óendanlega hægt niður.

Nú hafa yfirvöld í San Francisco boðað til rótækra aðgerða til að sporna við þessari mengun sem felur í sér bann á sölu á öllum frauðplastvörum og tekur bannið gildi 1 janúar 2017. Þessar aðgerðir eru liður í metnaðarfullri áætlun San Francisco um ruslfría borg árið 2020.

Ætla má að aðgerðir sem þessar spari umhverfinu okkar umtalsvert af plastmengun. Hér á Íslandi stendur fólk einnig í undirbúningi aðgerða til að minnka losun plasts útí umhverfið, en nýlega kynnti umhverfisstofnun áætlun sem miðar að því að minnka notkun einnota plastvara á borð við plastburðarpoka niður í 40 plastpoka á mann á ári. Það eru svo sannarlega háleit markmið líka þar sem talið er að hver Íslendingu noti um 105 plastburðarpoka á ári eins og staðan er í dag.

Aðgerðir sem þessar eru einstaklega ánægjuleg og við getum og ættum öll að leggja okkar af mörkum við að reyna að endurnýta plast eins og við getum sem og endurvinna það plast sem ekki er hægt að endurnýta.