Mynd: Forbes
Mynd: Forbes

Sædýragarðurinn SeaWorld í San Diego hefur sætt harðri gagnrýni undanfarin ár fyrir það að hafa háhyrninga til sýnis í garðinum. Gagnrýnin stafar helst af því að háhyrningar þrífast illa í sædýragörðum og lifa til að mynda skemur en háhyrningar í náttúrunni. Árið 2013 vakti heimildarmyndin Blackfish athygli á þeim vanda sem fylgir því að hafa háhyrninga í sædýragörðum auk slæmrar meðferðar á þessum fallegu skepnum. Myndin vakti hörð viðbrögð og nú hefur SeaWorld sent frá sér tilkynningu þess efnis að frá og með næsta ári verði háhyrningasýningum fækkað og loks alfarið hætt.

Ákvörðun SeaWorld er vissulega skref í rétta átt en þýðir þó ekki að háhyrningar verði ekki lengur til sýnis í garðinum eða að aðrir sambærilegir garðar fari að fordæmi SeaWorld. Hvað SeaWorld varðar verður sett á laggirngar einhverskonar fræðsla um þá háhyrninga sem þar eru en þess má einnig geta að í október á þessu ári var lagt bann við því að háhyrningar séu ræktaðir í sædýragörðum í Kaliforníufylki.