seal_1_university_of_st_andrews_lars_boehme

Árið 2004 byrjaði rannsóknarhópur að setja skynjara á höfuð sela á Suðurskautslandinu. Tilgangurinn var að safna gögnum um hafið í kringum heimsálfuna og athuga hver áhrif hlýnunar jarðar eru á hafið og hegðun selanna. Lars Boehme, einn vísindamannanna, líkti söfnun gagnanna við tíst á Twitter í fréttatilkynningu frá rannsóknarhópnum.

Kostur þess að nota seli til að safna gögnum er helst sá að þeir komast á staði sem við mennirnir getum ekki nálgast. Hver skynjari endist í um eitt ár áður en hann dettur af höfði selsins og getur hver selur safnað mikið af upplýsingum um umhverfi sitt. Skynjararnir mæla til dæmis hitastig og seltu og eru mælingarnar allt frá yfirborði sjávar og niður á rúmlega 1.800 metra dýpi. Gögnin eru síðan send sjálfkrafa til vísindamannanna þegar selurinn kemur upp á yfirborðið.

Nú þegar hafa verið birtar hvorki meira né minna en 77 ritrýndar greinar um rannsóknina og getur almenningur einnig nálgast gögnin á netinu.

Gagnasöfnun á Suðurskautslandinu er mikilvægur liður í því að skilja hnattræna hlýnun enda er ísinn á svæðinu að bráðna hratt.