1442398231123_web_1024

Nýlega fór ljósmyndarinn Robyn Malcom í hvalaskoðunarferð við strendur Ástralíu. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Malcom varð vitni af því að selur húkkaði sér far með hnúfubak, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Reyndar tók Malcom ekki eftir selnum í ferðinni sjálfri heldur tók hún eftir honum þegar hún skoðaði myndirnar þegar heim var komið.

Í hvalaskoðunarferðinni sá hópurinn hóp af hnúfubökum og er líklegt að selurinn hafi haldið sig nálægt hópnum til að njóta góðs af veiðum hans, samkvæmt Geoff Ross, sérfræðingi í villtum dýrum við NSW National Parks and Wildlife Service.

Ross bætir við að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fólk hafi orðið vitni af því að selur fái far með hval með þessum hætti, það sé þó mjög sjalgæft. Sérstaka athygli vekur að af myndunum að dæma virðist vera að hvalirnir hafi verið að notast við veiðiaðferð sem ekki hefur sést áður á svæðinu og hefur hingað til verið talið að hún sé eingöngu notuð í kaldari höfum.

Veiðiaðferðin virkar þannig að hvalirnir búa til einskonar loftbólunet utan um torfur fiska með því að synda undir torfuna og að yfirborði sjávar. Á meðan blása þeir loftbólur sem mynda þétta net loftbóla sem fiskarnir hætta sér ekki í gegnum. Hvalirnir gæða sér síðan á fiskunum sem komast hvergi á meðan. Sjá má myndband af aðferðinni hér að neðan.