Nashyrningurinn Sudan er síðasta karldýr norðlægra hvítra nashyrninga sem er ein tveggja undirtegunda hvítra nashyrninga. Sudan er í raun einn þriggja einstaklinga af tegundinni í heiminum en hinir tveir eru kvendýrin Najin og Fatu sem eru dóttir hans og dótturdóttir hans.

Sudan ratar nú í fréttirnar vegna tísts sem hlotið hefur mikla athygli á Twitter. Á myndinni má sjá Sudan liggja fyrir og skrifar ljósmyndarinn Daniel Scheider: “Viltu vita hvernig útdauði lítur út? Þetta er síðasti karlkyns norðlægi hvíti nashyrningurinn. Síðasti. Aldrei aftur.”

Árið 2009 voru Sudan, Najin, Fatu og fjórði nashyrningurinn Suni sem nú er dáinn, flutt frá Tékklandi til verndarsvæðis í Kenía í þeirri von að dýrin ættu auðveldara með að geta af sér afkvæmi í umhverfi sem væri líkara þeirra náttúrulegu heimkynnum. Það gekk ekki eftir. Suni dó árið 2014 og í ljós kom að Naijin og Fatu glímdu við frjósemisvanda auk þess sem sæðistala Sudan var lág.

Ljóst er lítil von er fyrir nashyrningana sér í lagi í ljósi þess að Sudan er nú þegar 43 ára og er kominn yfir meðalaldur tegundarinnar sem eru 40 ár.

Ýmislegt hefur verið reynt til að gefa tegundinni von og er Sudan vaktaður allan sólarhringinn til að vernda hann fyrir veiðiþjófun en auk þess var Tinder aðgangur stofnaður fyrir Sudan fyrr á árinu. Í aðgangnum sem sjá má hér að neðan, kemur meðal annars fram að Sudan sé góður undir pressu og hafi gaman að því að éta gras og slaka á í drullubaði.

Tilgangur Tinder aðgangsins var að vekja athygli á söfnun sem nú stendur yfir á GoFundMe þar sem reynt er að safna 9 milljónum punda til að styrkja gervisæðingu með sæði Sudan og eggi frá Najin eða Fatu. Söfnunin hefur nú staðið yfir í 27 mánuði en aðeins hafa safnast tæp 36 þúsund pund svo enn er langt í land.