endangered-rhino-guarded-24-7

Sú sorglega staða er komin upp að sú undirtegund hvítra nashyrninga sem lifir í Mið-Afríku (Ceratotherium simum cottoni, e. northern white rhino) eru á barmi útdauða. Af þeim fimm nashyrningum af tegundinni sem eftir eru er aðeins eitt karldýr. Tarfurinn Sudan er 42 ára að lifir á verndarsvæði í Kenya sem nefnist Ol Pejata Conservancy ásamt tveimur kvendýrum. Hin tvö dýrin, sem eru kvenkyns, eru í dýragörðum í San Diego og Tékklandi.

Nashyrningar eru gott dæmi um dýr sem er í hættu vegna ágangs manna. Horn þeirra eru eftirsóknarverð í Asíu þar sem fólk telur að þau hafi ýmsan lækningamátt. Þrátt fyrir mikla vitundavakningu eru horn nashyrninga enn eftirsóknarverð og eru þau því oft fjarlægð af dýrunum í verndarskyni.

Til þess að vernda Sudan fyrir veiðiþjófum hafa horn hans verið fjarlægð en óvíst er að það dugi til. Því hefur verið brugðið á það ráð að vakta Sudan allann sólarhringinn. Sudan er upphaflega úr dýragarði í Tékklandi en var fluttur til Kenya ásamt þremur öðrum nashyrningum í þeirri von að þeir myndu fjölga sér. Allt kom fyrir ekki og á þeim fimm árum sem Sudan hefur verið í Kenya hefur enginn kálfur fæðst. Það má segja að Sudan sé eina von tegundarinnar og er því allt lagt í sölurnar til að hann nái að lifa nógu lengi til að koma erfðaefni sínu áfram.

Hægt er að styrkja verkefnið til þess að halda Sudan og lífvörðum hans öruggum í gegnum hópfjármögnunarsíðuna GoFundMe.