7445-Chimp-Holdng-Head-Sweetwaters_1

Breytingar á heimkynnum villtra dýra af mannavöldum hafa oft slæmar afleiðingar. Mörg dýr eru þó þekkt fyrir aðlögunarhæfni sína og geta aðlagast breyttum aðstæðum til þess að auka lífslíkur sínar. Eitt dæmi um þetta eru simpansar í Úganda.

Svo virðist sem að simpansar í Úganda hafi lært umferðareglurnar. Vísindamenn hafa tekið eftir því að simpansarnir nota svipaðar aðferðir og við mannfólkið þegar þeir fara yfir umferðagötur, það er að líta til beggja átta áður en farið er yfir götuna.

Þessi hegðun vakti eðlilega áhuga vísindamanna og birti rannsóknarhópur niðurstöður um hegðun apanna í American Journal of Primatology. Á tveggja ára tímabili var fylgst með því þegar 122 einstakir simpansar fóru yfir hættulega götu í Kibale þjóðgarði í Úganda. Í ljós kom að meira en 90% simpansanna litu til beggja átta áður en þeir fóru yfir götuna og margir þeirra reistu sig upp til að kanna aðstæður. 55% simpansanna hlupu yfir götuna sem gefur til kynna að þeir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að slóra ekki þegar farið er yfir umferðagötur. Auk þess litu 20% apanna eftir félögum sínum þegar þeir fóru yfir götuna.

Það er von rannsóknarhópsins að rannsóknir sem þessar leiði til þess að þegar nýjar götur eru lagðar í Afríku muni menn taka tillit til villtra dýra. Þetta væri hægt að gera með því að byggja til dæmis brýr eða undirgöng fyrir dýrin svo hægt sé að lágmarka hættu sem stafar að þeim.

Hér fyrir neðan má síðan sjá myndband af simpönsum fara yfir götu.

Heimild: New Scientist