albinotapir01.adapt.1190.1

Albínismi á sér stað þegar litarefni vantar í húð, hár og augu manna og dýra. Albínóar eru mjög sjaldgæfir í náttúrunni enda er afar óheppilegt að reyna að fela sig þegar maður er skjannahvítur, nema auðvitað í snjó. Auk þess eru albínóar oft með skerta sjón sem gerir þeim lífið ekki auðveldara í villtri náttúrunni.

Ljósmyndarinn Luciano Candisani frétti nýlega að sjaldgæfur albínóa tapír (Tapirus terrestris) hafði sést á verndarsvæði í austanverðri Brasilíu. Candisani var staðráðinn í því að ná myndum af þessu sjaldgæfa dýri en fyrst um sinn gekk það illa. Tapírar eru næturdýr og albínóinn lét ekki sjá sig. Ljósmyndarinn brá þá á það ráð að setja upp ljósmyndagildru og var myndin hér að ofan tekin með henni. Þetta er í fyrsta skipti sem myndir nást af villtum albínóa af tegundinni og var Candisani að vonum ánægður með myndina, sem birtist í National Geographic. Eins og margar tegundir í regnskógum Brasilíu eru tapírar í hættu frá ágangi manna og skógareyðingu og fer tapírum því fækkandi í náttúrunni.

Frétt á vefsíðu National Geographic um málið má finna hér.