Mynd: boston.com
Mynd: boston.com

Um nokkurt skeið hafa íslenskir vísindamenn, sem og íslenskur almenningur, haft áhyggjur af þróun lundastofnsins hér við land. Minna og minna sést af lunda við landið en áður fyrr fannst mjög mikið af þessum skrautlega og fallega fugli víðsvegar um landið.

Einn þessara staða er Vestmannaeyjar en þar hafa heimamenn stundað að veiða fulginn í háf, sú aðgerð getur reynst nokkuð heppileg þegar rannsaka á lundastofninn þar sem um 80% fugla sem veiðast eru ókynþroska fuglar og því auðvelt að skoða endurnýjun í stofninum. Þó nokkuð góð skrá er til um lundaveiðar í eyjum og af þessum tveimur ástæðum hafa rannsakendur við Náttúrustofu Suðurlands því gott tæki til að rannsaka hegðun lundastofnsins í áranna rás. Rannsóknin var kynnt á dögunum á Líffræðiráðstefnunni 2015.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að stærð lundastofnsins og sjávarhiti sýna neikvæða fylgni, sem fylgir 70 ára hitasveiflu. Þessi endurtekna sveifla felst í 35 ára hitasveiflum og 35 ára kulasveflum. Þetta þýðir að þegar sjávarhiti hækkar þá fækkar einstaklingunum sem veiðast af lundastofninum. Líkleg ástæða þess að sjávarhiti hefur þessi áhrif á lundann er að sandsílin sem lundinn nýtir sér helst sem fæðu, una sér best í köldum sjó. Sandsílin nýta sumrin til að afla sér fæðu og stækka en á veturnar sem eru mun kaldari tími liggja þau í nokkurs konar dvala. Hækkandi hitastig sjávar hefur áhrif á efnaskiptahraða sílanna sem veldur því að þau klára forðann sinn áður en vetrinum líkur. Við þessar aðstæður verða því mun meiri afföll af síldarstofninum en verða meðan sjávarhiti helst lágur.

Þrjú hnignunarskeið sjást í veiðitölum. Það fyrsta, sem sést árið 1890, kom í kjölfar hafísára við suðurland en þá var Vestmanneyjahöfn full af ís. Hin hnignunarskeiðin tengjast sjávarhlýnun að vetri en þau sjást árin 1932 og svo aftur 2005. Hnignunartímabilið sem lundastofninn hefur verið að sigla inní núna gerðist á mun skemmri tíma og lundastofninn hefur tekið að sama skapi tekið skarpari breytingum en áður hefur sést og það er talið sérstakt áhyggjuefni, enda er er mjög líklegt að hlýnunin sé tilkomin vegna hnattrænnar hlýnunar.