2-1-w1000h1000

Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að fjöldi tegunda lífvera eru í útrýmingarhættu. Nú hafa líffræðingar komist að þeirri niðurstöðu að sjötta útdauðahrina Jarðar standi yfir og er það í fyrsta skipti sem slík hrina á sér stað síðan risaeðlurnar dóu út. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Science Advances.

Prófessor við Stanford háskóla, Paul Ehrlich, sagði í fréttatilkynningu að niðurstöðurnar sýni án vafa að sjötta útdauðahrinan sé hafin. Slæmu fréttirnar enda ekki þar en samkvæmt rannsókninni komum við mennirnir hrinunni af stað og erum sjálf í áhættuhópi.

Lengi hefur vísindamenn grunað að útdauðahrina væri hafin en efasemdafólk hefur hingað til talið að hraðinn sé ekki svo mikill að um útdauðahrinu sé að ræða. Niðurstöður þessarar nýju rannsóknar gætu breytt skoðun margra.

Til þess að reikna út hvort um útdauðahrinu sé að ræða er núverandi hraði útdauða borinn saman við þann meðalhraða sem búast má við að tegundir deyji út á við eðlilegar aðstæður. Meðalhraði útdauða var metinn sem svo að hann væri tvöfallt meiri en áætlað hefur verið í fyrri rannsóknum. Þrátt fyrir þetta sýndu niðurstöður að tegundir eru að deyja út 15-100 sinnum hraðar en eðlilegt þykir. Til að setja þetta í samhengi hafa 468 tegundir hryggdýra dáið út, svo vitað sé, síðan árið 1900 en tegundirnar ættu í raun aðeins að hafa verið níu.

Ef þróunin heldur áfram líkt og verið hefur er áætlað að 41% allra froskdýra og 26% spendýra muni deyja út. Slíkur fjöldi útdauða gæti valdið því að við mennirnir verðum sjálf í hættu eftir aðeins þrjár kynslóðir, enda treystum við á stöðugleika vistkerfa meira en við gerum okkur oft grein fyrir. Að sögn Gerardo Ceballos, einn aðalhöfunda greinarinnar, gæti útdauðahrinan leitt til útdauða mannkynsins.

Í rannsókninni voru ástæður útdauðans einnig skoðaðar og kom í ljós að þeir þættir sem mest áhrif hafa eru af mannavöldum:

  • Eyðilegging landsvæða til notkunar fyrir mannabústaði, skógarhögg og landbúnað
  • Tilkoma ágengra tegunda í vistkerfi
  • Losun kolefnis
  • Eiturefni sem hafa áhrif á vistkerfi

Að lokum er tekið fram í greininni að líklegt sé að útreikningarnir vanmeti hættuna frekar en að ofmeta hana en áhersla var lögð á það í rannsókninni að finna raunhæf neðri mörk.

Til þess að enda þetta á jákvæðu nótunum telja vísindamennirnir ekki að öll von sé úti enn. Tíminn sé þó knappur og bregðast þurfi skjótt við ef ætlunin er að hægja á útdauðahrinunni.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um rannsóknina mælir Hvatinn með myndbandinu hér að neðan frá Stanford.