Mynd: The Black Vault
Mynd: The Black Vault

Hlýnun jarðar leiðir nú til þess að hvert hitametið á fætur öðru er slegið, raunar í hverjum mánuði. Hraði hlýnunarinnar hefur kannski komið sumum á óvart en jafnvel fræðimenn á þessu sviði hafa ekki alltaf verið sammála um hvernig hlýnunin þróast. Ný rannsókn á vegum NASA hefur nú sýnt fram á hvers vegna svona erfitt hefur reynst að meta hraða hlýnunarinnar.

Þegar gerð eru líkön til að meta hlýnun jarðar er notast við mælingar sem hafa verið gerðar víðsvegar um heiminn síðastliðin 150 ár. Mælingarnar eru misþéttar eftir svæðum og sem dæmi eru ísilögð pólsvæðin ekki sérlega aðgengileg svo mælingar þar eru strjálar. Þessi svæði hlýna samt sem áður hraðar en önnur svæði á jörðinni, svo færri mælingar þaðan skekkja myndina töluvert þegar kemur að því að búa til hlýnunarmódel.

Að auki fara mælingar ýmist fram í vatni eða lofti, áður fyrr var notast við hvort tveggja en þar sem vatn og loft hefur ekki sömu varmarýmd þá er varasamt að reyna að nota bæði til að byggja spálíkan. Í seinni tíð hafa vatnsmælingar verið notaðar þar sem loft hitnar hraðar en vatn.

Þegar þetta tvennt er talið saman ásamt þeirri staðreynd að íshula og ísjakar á sjó hafa hörfað, sem bæði breytir aðstæðum til mælinga og hitastigi á mælistað umtalsvert, kemur í ljós að líkön reikna með u.þ.b. 20% hraðari hlýnun jarðar en raunverulegar mælingar sýna.

Þessar niðurstöður munu hjálpa okkur við nákvæmara mat á hlýnun jarðar í framtíðinni og um leið hjálpa okkur að meta þá áhættuþætti sem hlýnuninni fylgja.