Mynd: Owen Cofee/University of Queensland
Mynd: Owen Cofee/University of Queensland

Nokkrar sæskjaldbökur í Ástralíu fengu nýlega sundföt, en ekki í þeim tilgangi að fela nekt þeirra, heldur í þágu vísindanna.

Ástralski doktorsneminn Owen Coffee og líffræðingurinn Carmen de Silva ákváðu að bregða á það ráð að klæða sæskjaldbökur af tegundinni Caretta caretta á þennan hátt til þess að safna saursýnum úr dýrunum.

Tegundin er mjög útbreidd og finnst í Atlantshafi, Kyrrahafi, Indlandshafi og Miðjarðahafi. Þrátt fyrir það að tegundin sé eins útbreidd og raun ber vitni er hún í hættu vegna ágangs manna og vilja vísindamennirnir því safna saursýnum til að skilja betur hvar búsvæði skjaldbakanna eru og hvar þær éta.

Coffee og de Silva veiddu þess vegna sex sæskjaldbökur sem þau létu í saltvatnstanka þar til þau skiluðu af sér saur. Vandamál kom þó upp þegar safna átti sausýnunum áður en þau leystust upp í vatninu. Eftir nokkra umhugsun brugðu þau á það ráð að útbúa sundfötin, sem sjást á myndinni hér að ofan, úr gömlum stuttermabolum og frönskum rennilás.

Sundfötin reyndust vel og vísindamennirnir fengu sýnin sem þá vantaði. Skjaldbökurnar voru síðan að sjálfsögðu frelsaðar eftir að sýnin náðust, án sundfatanna góðu.