Mynd: CSBA
Mynd: CSBA

Undanfarin misseri hafa borist fréttir af hnignun býflugustofna víðs vegar um heiminn. Ástæða þessarar hnignunar er ekki að fullu ljós en margar tilgátur eru uppi. Að sjálfsögðu er líklegast að það eru við mennirnir sem höfum þessi áhrif á býflugur, ef ekki beint þá að minnsta kosti óbeint með hlýnun jarðar.

Rannsókn sem birtist í Science í lok júní mánðar rennir stoðum undir tilgátur um ábyrgð mannsins. Í rannsókninni er fylgjst með býflugum sem lifa í nágrenni við akra þar sem skordýraeitur úr flokki neónikótínóíða er notað.

Neónikótínóíðar er flokkur varnarefna sem eru mikið notuð við ræktun lands til að verja plönturnar fyrir skordýrum sem éta plönturnar og eyðileggja þær. Þessi efni eru vinsæl og mikið notuð vegna þess hvað þau dreifa sér vel um plöntuna, það skiptir því ekki máli hvar skordýrin ráðast á plönturnar, þau verða alltaf fyrir áhrifum.

Býflugur taka þó ekki þátt í að éta og eyðileggja plönturnar en þrátt fyrir það virðast varnarefnin hafa áhrif á þær. Návígi hungangsflugnanna við varnarefnin veldur alls herjar hnignun í stofninum, drottningarnar lifa ekki jafn vel eða lengi og vinnuflugurnar eru veiklulegar og óhreinar. Sérstaklega má merkja þessi áhrif ef einhverjir aðrir utanaðkomandi þættir koma einnig til, svo sem óhagstætt veðurfar eða annað slíkt.

Það kemur kannski ekki á óvart að frjókornin sem þessar flugur eru að sækja í innihalda neónikótínóíða. Hins vegar gæti það komið á óvart að þessi frjókorn tilheyra yfirleitt ekki plöntunum sem verið er að rækta á ökrunum. Frjókornin koma frá plöntum sem lifa utan við akrana en verða fyrir áhrifum skordýraeitursins vegna þess að neónikótínóíðar eru vatnsleysanleg efni og þau finnast í öllum plöntuhlutum akurplantanna. Þegar akurplanta býr til fræ, fellir lauf eða aðra plöntuhluta sem rotna og fara útí jarðveginn, losna um leið varnarefni sem ferðast með regnvatni út fyrir akurinn og í nærliggjandi plöntur.

Því miður eru þessar sorgarfréttir ekki einu rannsóknirnar sem birtar hafa verið nýlega varðandi neónikótínóða og skaðsemi þeirra. Önnur rannsókn sem einnig var birt í Science bendir til þess að áhrifa varnarefnanna gæti einnig meðal hunangsflugustofna. Þá voru áhrif varnarefna skoðuð í þremur Evrópu-löndum en notkun þeirra leiddi til minnkun stofna yfir vetrartímann og/eða erfiðleika flugustofnanna við æxlun.

Vísindamenn hafa lengi velt fyrir sér langtímaáhrifum varnarefna á borð við neónikótínóíða í umhverfinu. Þessar niðurstöður benda til þess að herða þurfi löggjöf um notkun efnanna, sérstaklega ef við viljum halda lífi í býflugum og hunangsflugum. Býflugur eru kannski ekki uppáhalds flugur flestra, en þrátt fyrir að vera stundum pínulítið ógnvænlegar þá eigum við mennirnir ótrúlega margt í lífríkinu undir þeim komið og því er afar mikilvægt að halda í þeim lífinu.