Mynd: : Race for Water/Christophe Launay
Mynd: : Race for Water/Christophe Launay

Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðlegu náttúruvernasamtakanna (IUCN) gætu örsmáar plastagnir af vörum á borð við fatnað og dekk verið allt að 30% plastmengunar í hafinu. Jafnvel gætu slíkar plastagnir verið stærri þáttur í plastmengun hafsins en plastúrgangur.

Mikil umræða hefur verið uppi undanfarin ár varðandi plastmengun í hafinu, meðal annars þá mengun sem stafar að agnarsmáum plastögnum sem er að finna í ýmsum snyrtivörum og efnum sem mannkynið notar. Skýrslan varpar þó nýju ljósi á áhrif gerviefna sem notuð eru í fatnað og svörfun dekkja við akstur.

Í skýrslunni er áætlað að af þeim 9,5 milljónum tonna af plasti sem losuð eru út í hafið á hverju ári séu 15-31% í formi plastagna, þar af er talið að nær tveir þriðju plastagnanna komi til vegna þvottar á fatnaði úr gerviefnum og svörfun dekkja.

Í dag er mikil áhersla lögð á að minnka plastúrgang almennt en niðurstöðurnar benda á að daglegt líf okkar getur haft miklar afleiðingar á mengun hafsins og bendir IUCN á að ekki sé nóg að huga eingöngu að úrvinnslu úrgangs til að koma lágmarka mengun í hafinu.

Nú þegar hafa verið stigin skref í átt að því að banna notkun plastagna í snyrtivörur sem er skref í rétta átt en samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru þær þó aðeins um 2% plastagna sem losaðar eru á heimsvísu. Því myndi bann á þeim einum og sér hafa takmörkuð áhrif og mikilvægt er að horfa til annarra þátta og hvernig er best að lágmarka áhrif þeirra.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.