Mynd: PCWallArt
Mynd: PCWallArt

Í nútímanum njótum við ljóss í mun meira mæli en forfeður okkar gerðu, vegna þess stórkostlega fyrirbæris sem rafmagnið er. Við notum rafmagnið til að lýsa upp borgir og bæi í skammdeginu og gerum okkur þannig kleift að komast í gegnum veturinn á mun auðveldari hátt. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvaða áhrif þessi ónáttúrulega birta hefur á mannslíkamann en færri hafa verið birtar þar sem áhrifin á náttúruna eru skoðuð.

Nýlega birti vísindahópur við University of Exeter grein í Proceedings of the Royal Society B sem sýnir að þessi næturlýsing gæti haft áhrif á árstíðasveiflur í náttúrunni. Til að skoða þetta var notast við gögn frá almenningi sem var beðinn um að skrá hjá sér hvenær ákveðnar plöntutegundir fóru að blómstra á hverju vori. Skráningin nær yfir þrettán ár og er frá fólki víðs vegar af Bretlandseyjum.

Niðurstöður þátttakenda voru síðan bornar saman við gervitunglamyndir frá búsvæðum þessa fólks þar sem í ljós kom að á bjartari svæðum virtist plönturnar hafa flýtt blómstrun sinni um allt að sjö og hálfan dag. Mörgum gæti þótt slík breyting lítilfjörleg, enda einungis um plöntu að ræða en sannleikurinn er sá að þessar plöntur gætu og eru líklega einungis hluti af þeim lífverum sem fer úr jafnvægi. Auk þess er náttúran um margt samstillt. Þegar ákveðin planta fer að blómstra þá vita ákveðin skordýr að þeirra tími til að fjölga sér er runninn upp og svo koll af kolli.

Rannsóknir sem þessar eru mikilvægar fyrir yfirvöld til að taka ákvarðanir um lýsingu í þéttbýli, hversu lengi sú lýsing á að vara og hvaða bylgjulengdir ljóss sé best að nota. Við vonum að þessi rannsókn skili sér að lokum í breyttum áherslum hjá viðeigandi yfirvöldum hverju sinni.