solar-road1

Holland er þekkt fyrir að vera mikil hjólaþjóð og tóku Hollendingar upp á því í fyrra að fara nýstárlega leið í gerð hjólastíga. Fyrirtækið SolarRoad útbjó stíga sem eru þaktir sólarsellum. 70 metra stíg var komið fyrir í tilraunaskini og eru nú sex mánuðir liðnir frá því að hann var lagður, samkvæmt frétt Science Alert.

Verkfræðingar segja stíginn fara fram úr björtustu vonum en hann framleiðir 3.000 kWh sem nægir sem orkugjafi fyrir eitt heimili í heilt ár. Þótt ótrúlegt megi virðast þola stígarnir mikinn þunga og fara létt með það að bera 12 tonna slökkviliðsbíla. Sólarsellurnar eru hannaðir þannig að þær hleypi inn eins miklu ljósi og mögulegt er og eiga að endast í að minnsta kosti 20 ár.

Tæknin er þó ekki gallalaus en á einum stað á stígnum hefur lítill hluti húðunarefnisins skemmst vegna sveiflna í hitastigi. Verið er að vinna í því að betrum bæta húðunina svo slíkt gerist ekki aftur.

Það er ljóst að tækni sem þessi gæti nýst vel sem endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi á mörgum stöðum í heiminum og er hópurinn hjá SolarRoad bjartsýnn á framhaldið. Við bíðum spennt eftir frekari fréttum af þessum óhefðbundna orkugjafa.