coral-reef-underwater-ocean-sea-anemones-Favim_com-485040

Mörgum þykir fátt skemmtilegra en að snorkla eða kafa um falleg kóralrif og skoða lífríkið sem þar er að finna. Það er þó ekki hættulaust, að minnsta kosti ekki fyrir kóralrifin sjálf samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Svo virðist nefnilega vera að einn sökudólgurinn þegar kemur að hnignun kóralrifa sé sólarvörn.

Í langflestum sólarvörnum er að finna efni sem nefnist oxýbensón. Oxýbensón er ekki í sólarvörnum að ástæðulausu en það er eitt af fáum efnum sem sýnt hefur verið fram á að verji húð okkar gegn skaðlegum UVA og UVB geislum sólarinna. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, sem birtar voru í tímaritinu Archives of Environmental Contamination and Toxicology, hefur oxýbensón þó neikvæð áhrif á kóralla.

Áhrifin á kórallanna virðast vera tvíþætt. Annars vegar hefur oxýbensón þau áhrif á kóralla að þeir verða viðkvæmari fyrir bleikingu en hins vega getur efnið haft neikvæð áhrif á innkirtlakerfi ungra kóralla og valdið því að þeir deyji.

Slæmu fréttunum lýkur ekki þar en oxýbensón þarf einungis að vera í mjög litlum styrk til að hafa þessi neikvæðu áhrif, eða því sem nemur einum vatnsdropa í sex og hálfri ólympískri sundlaug.

Eins og gefur að skilja hefur oxýbensón mikil áhrif þar sem ferðamenn halda sig og sýndu niðurstöður rannsóknarinnar fram á að áhrifin voru mest í kóralrifum við Hawaii eyjar og í Karabíska hafinu. Styrkur oxýbensóns á þeim svæðum var allt að 12 sinnum hærri en á öðrum svæðum sem skoðuð voru.

Hvað er til ráða?
Einfaldasta lausnin á vandamálinu er að fólk hætti að nota sólarvarnir sem innhalda oxýbensón. Fyrir þá sem vilja forðast það að hafa neikvæð áhrif á kóralrif hafsins í næsta sumarfríi er því um að gera að lesa innihaldslýsingar sólarvarnarinnar áður en hún er keypt.