frog-love-bed-bedside-table

Froskar eru lífverur sem lifa bæði í vatni og á þurru landi. Þegar þær æxlast verpa flestar froskategundir eggjum sem þroskast í grunnum pollum. Umhverfið sem eggin þroskast í hefur því gríðarleg áhrif á framvindu mála. En umhverfi froska og eggja þeirra var einmitt viðfangsefni rannsóknar sem birtist nýlega í Canadian Journal of Fisheries and Aquatic Sciences.

Í rannsókninni eru áhrif salts í umhverfinu skoðuð. Það vill nefnilega þannig til að við notum salt mikið á veturna til að draga úr hálku á vegum. Í ljós kom að með auknum saltstyrk í umhverfi froskanna lækkaði hlutfall kvendýra um allt að 10% og þau kvendýr sem urðu til voru minni en hefðbundið er.

Meðal margra tegunda í náttúrunni er kynjahlutfallið yfirleitt skakt, þ.e. yfirleitt eru fleiri kvendýr en karldýr. Þessi mismunur er vegna þess að fjöldi afkvæma takmarkast af fjölda kvendýra, þar sem eitt karldýr getur frjóvgað egg hjá mörgum kvendýrum sem augljóslega geta ekki frjóvgað hvert egg með mörgum karldýrum. Þess vegna getur það haft stórvægilegar afleiðingar fyrir tegundina ef kvendýrunum fækkar umtalsvert og tegundin gæti því átt á hættu að eyðast út.

Þessar niðurstöður vekja okkur til umhugsunar um hversu miklu máli það skiptir að setja ekki hvað sem er útí umhverfið. Meira að segja efni eins og vegasalt, sem okkur þykir tiltölulega meinlaust getur haft meiri áhrif á lífríkið en við höfðum gert okkur í hugarlund.