bunny

Snyrtivörur eru margar hverjar prófaðar á dýrum áður en við hleypum þeim á markað, tilgangurinn er að passa uppá að engin efni komist á markað sem geta skaðað neytendur. En margir neytendur reyna þó að forðast það að kaupa vörur sem eru prófaðar á dýrum, enda hafa þau greyin lítið um það að segja hvað rannsakendur gera við þau.

Á ráðstefnu sem haldin var í Ohio í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum var nýtt stærðfræðimódel kynnt sem vonandi getur leyst dýratilraunir af hólmi. Módelið er hannað af stærðfræðingum við Háskólann í Cincinnati en það byggir á því að módelið er matað af þekktum viðbrögðum húðarinnar við u.þ.b. 200 efnum. Útfrá því er hægt að spá fyrir um hvernig húðin bregst við næstum 30 þúsund efnum sem hafa kannski líka virkni eða lögun.

Rétt er að taka fram að rannsóknin hefur enn ekki verið birt í ritrýndu tímariti og ráðstefnan þar sem módelið var kynnt var að hluta til kostuð af Procter & Gamble, sem er stór snyrtivöruframleiðandi. Það er því ekki víst að módelið muni endilega standast þær væntingar sem settar hafa verið fyrir það enda getur módelið aldrei verið betra en sú þekking sem við búum yfir um hegðun húðarinnar og viðbrögð hennar við áreiti.

Það er hins vegar mjög jákvætt að sjá snyrtivörurisa og vísindamenn taka höndum saman til að reyna að koma í veg fyrir óþarfa dýratilraunir. Kannski er ástæða snyrtivörurisans ekki að vernda dýr heldur spara sér pening, en ef útkoman er betra líf fyrir dýrin, getum við þá ekki alveg lifað með því?