Nú þegar farið er að síga á seinni helming ársins komumst við nær því sjá hvernig árið var í samanburði við fyrri ár. Líklegt þykir að árið verði meðal þriggja heitustu ára síðan mælingar hófust en nú getum við ekki kennt El Nino um líkt og í fyrra.

El Nino veðurfyrirbærið skýtur upp kollinum þegar hitastig í miðju og austanverðu Kyrrahafi er óvenjuhátt og getur valdið miklum stormum á sumum svæðum heimsins en þurrkum á öðrum. Veðurfyrirbærið átti sér stað á síðustu tveimur árum og skýrir það að einhverju leyti háan meðalhita þeirra ára.

Það sama er ekki upp á teningnum fyrir árið 2017 en Alþjóðaveðurfræðistofnunin (World Meteorological Organization) gaf út yfirlýsingu á mánudag þar sem sagt var frá því að meðalhitastig fyrstu níu mánuði ársins hafi verið 1,1°C yfir meðalhita síðan mælingar hófust.

Þessi tala er nokkuð ógnvekjandi í ljósi þess að Parísarsáttmálanum er ætlað að halda hitastigshækkuninni undir 1,5°C.

Niðurstöðurnar koma sérfræðingum á sviði loftslagsmála ekki á óvart enda hafa síðustu þrjú ár sett hvert hitametið á fætur öðru. Ljóst þykir að um langtímaþróun sé að ræða og er ekki von á því að þróunin snúi við án inngripa frá mannkyninu.