Myndir: University of the Witwatersrand, National Geographic Society og South African National Research Foundation
Myndir: University of the Witwatersrand, National Geographic Society og South African National Research Foundation

Það er óhætt að segja að niðurstöður einnar af merkari uppgötvunar fornleifafræðinnar hafi verið birta nýlega þegar ný tegund innan Homo ættkvíslarinnar var skilgreind. Tvær greinar um þessa nýju tegund voru birtar í tveimur greinum í tímaritinu eLife og má lesa þær í heild sinni hér og hér.

Steingervingar tegundarinnar sem hefur fengið nafnið Homo nalendi fundust fyrir um tveimur árum síðan í hellakerfi í Suður Afríku sem nefnist Rising Star. Rising Star hellakerfið er á svæði sem kallað hefur verið vagga mannkynsins vegna þess mikla fjölda steingervinga sem þar hafa fundist.

Hvorki meira né minna en 15 einstaklingar af Homo nalendi fundust og voru steingervingarnir fleiri en 1.500. Það er ómetanlegt að svo margir steingervingar hafi fundist á sama stað og í þessu tilviki fannst næstum hver einasti hluti beinagrindarinnar úr einstaklingum á breiðu aldursbili.

Homo naledi

Rannsóknir á steingervingunum hófust í nóvember 2013 og nefnist verkefnið Rising Star Expedition. Að verkefninu stóðu hvorki meira né minna en 60 vísindamenn og hellarannsóknarmenn.

Svo virðist sem að tegundin hafi haft mörg af sömu einkennum Homo sapiens auk frumstæðari einkenna. Fullvaxnir einstaklingar voru um 1,5 metrar á hæð og gengu uppréttir. Hvað líkamsbyggingu varðar voru þeir grannvaxnir með sterka vöðvamikla liði. Talið er að Homo nalendi hafi vegið um 45 kíló og hafði tegundin óvenju smávaxið höfuð. Höfuðið var svo smátt að heilinn hefur verið á stærð við heila minnstu suðurapa (Australopithecus), líklega aðeins örlítið stærri en heili simpansa.

Merkilegt þykir að mjaðmir, axlir og bolur voru heldur frumstæð en útlimir voru hins vegar mjög líkir okkar eigin. Hendur tegundarinnar voru nánast eins og hendur nútímamannsins, fyrir utan bogadregna fingur sem líklega voru gagnlegir til klifurs. Auk þess höfðu axlirnar meiri hreyfigetu en axlir Homo sapiens sem bendir til þess að tegundin hafi klifrað að einhverju leiti. Fætur Homo nalendi voru ekki síður merkilegir en þeir voru nánast nákvæmlega eins og fætur Homo sapiens.

CJ75h9Y

Fundarstaður Homo nalendi var heldur betur óvenjulegur en aðstæður í hellinum þar sem steingervingarnir fundust voru einangraðar og þröngar (þrengsta sprungan var aðeins 17,5 cm að breidd). Eftir að hafa velt möguleikunum fyrir sér telja vísindamenn að líklegast sé að þessir frumstæðu menn hafi komið í hellinn viljandi til þess að greftra einstaklinga úr hópnum en hingað til hefur sú iðja verið talin einstök fyrir Homo sapiens.

Berger, fyrsti höfundur greinarinnar, benti á það á blaðamannafundi að það sé stórmerkilegt að tegundin hafi farið svo djúpt í dimmann helli og vekur það upp spurningar um það hvernig þeir hafi ratað í myrkrinu. Svo vill til að elstu vísbendingar af eldstæðum manna fundust aðeins um 800 metra í burtu. Því veltir rannsóknarhópurinn því fyrir sér hvort tegundin hafi nýtt eld í leiðangrinum inn í hellinn.

Eins og er er afskaplega lítið vitað um lifnaðarhætti Homo nalendi annað en það sem nefnt var hér að ofan. Að auki bendir líkamsbyggingin til þess að tegundin hafi gengið langar vegalengdir sem hefur áður verið talið einstakt fyrir Homo sapiens, líkt og greftrun. Af handabyggingunni má sjá að þeir hafi notað hendurnar til að klifra en hendurnar bera ekki einkenni dýra sem klifra í trjám svo óvíst er hvernig þessi eiginleiki nýttist. Ekki er heldur vitað hversu gamlir steingervingarnir eru en talið er að þeir séu að lágmarki tveggja milljón ára gamlir, jafnvel eldri.

Ljóst er að steingervingarnir verða skoðaðir nánar til að reyna að skilja hvar þeir passa inn í þróunarsöguna og verður þetta því örugglega ekki síðasta frétt Hvatans um málið.

Heimild: IFLScience