Mynd: Hernan Coria/Facebook
Mynd: Hernan Coria/Facebook

Sá hrikalegi atburður átti sér stað í vikunni að smávaxinn höfrungur dó á strönd við borgina Santa Teresita í Argentínu eftir að ferðamenn tóku hann upp úr sjónum til að taka myndir með og af honum. Stór hópur af fólki safnaðist í kringum höfrunginn sem var látinn ganga á milli manna. Í kjölfarið birtist fjöldi sjálfsmynda á samfélagsmiðlum af fólki með höfrungnum sem lifði atvikið ekki af.

Í tilkynningur á vegum Vida Silvestre Foundation kemur fram að líklega hafi höfrungurinn dáið af völdum ofþornunar eftir að hafa verið of lengi í hitanum á ströndinni.

Að því er kemur fram á vefsíðu IFL Science er talið er að höfrungurinn hafi verið af tegundinni Pontoporia blainvillei og um einn og hálfur metri að lengd en tegundin er ein minnsta höfrungategund heims. Höfrungarnir er sjaldgæfir við strendur Suður-Ameríku og eru flokkaðir sem viðkvæm tegund á válista IUCN.

Þessi sorglegi atburður minnir okkur á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir villtum dýrum og getur engin sjálfsmynd verið þess virði að ógna lífi þeirra.