Þó ráðstefnan í París í desember, þar sem yfirvöld landa heims komu saman og ræddu loftlagsbreytingar, skilaði víðtækri stefnumótun í þeim málum, þá þarf mikið átak til að stöðva eða hægja verulega á hlýnun jarðar. Við munum því sjá áhrif hlýnunarinnar áfram og einnig eftir að aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd þar sem hitastig lofts og sjávar breytast hægt.

Mynd: University of Bergen
Mynd: University of Bergen

Heimskortið hér að ofan sýnir hvaða svæði í heiminum verða fyrir mestum áhrifum af hlýnun jarðar. Kortið er byggt á þrenns konar mælingum sem safnað var á árunum 2000-2013. Það sem mælt var voru lofthiti, aðgengi að vatni og skýjahula. Með því að fylgjast með breytingum í þessum þáttum og meta ræktanlega jörð á hverju svæði fyrir sig gátu vísindamenn við Háskólann í Bergen metið hvar hlýnun jarðar hefði mest afgerandi áhrif á lífríki, þ.e. vistkerfi.

Þau svæði sem eru græn á kortinu finna minnst fyrir hlýnun jarðar, meðan svæðin sem eru rauð munu að öllum líkindum breytast mjög mikið og hratt með meiri hlýnun. Það er athyglisvert að sjá á að rauðu svæðin eru jafn ólík svæði og Skandinavía og mið-Asía.

Söfnun gagna mun halda áfram og vonandi gefa enn betri mynd af áhrifum hlýnunar en með slíkum rannsóknum eykst þekking okkar til að takast á við áhrifin sem hlýnun jarðar mun óhjákvæmilega hafa á líf okkar hér á jörðinni.

Grein um rannsóknina birtist í Nature í febrúar, hægt er að nálgast greinina hér