89174_web

Fyrir um hundrað árum síðan var sú ákvörðun tekin af vísindamönnum að ættkvíslir risaeðlanna Apatosaurus og Brontosaurus, sem nefnast eins og er þórseðlur á íslensku, væru í raun svo líkar að þær ættu heima undir sömu ættkvísl, Apatosaurus. Nú hafa vísindamenn skipt um skoðun og Brontosaurus fengið sína eigin ættkvísl á ný, samkvæmt niðurstöðum greinar sem birt var í Peer J..

Flokkunarfræði lífvera er flókin og verður þeim mun flóknari þegar um steingervinga er að ræða. Auk þess hversu erfitt getur verið að flokka steingerðar lífverur var mikil samkeppni um það að skilgreina sem flestar tegundir risaeðla snemma á síðustu öld. Þessi samkeppni olli miklum ruglingi á sínum tíma og var steingervingafræðingurinn Othniel Marsh aðeins of fljótur á sér þegar hann greindi beinagrindur Apatosaurus og Brontosaurus. Marsh setti meira að segja vitlausa höfuðkúpu á steingerving Brontosaurus sem olli því að að greiningin var dregin í efa og Apatosaurus nafnið hélt velli. Marsh var þó ekki sá eini sem varð fljótfær í samkeppninni en Edward Drinker nokkur setti að sögn höfuðkúpu á hala eins steingervings fyrir mistök.

Í nýju greininni var 81 steingervingur skoðaður og komst rannsóknarhópurinn að þeirri niðurstöðu að nægilegur munur væri á Apatosaurus og Brontosaurus til þess að endurvekja nafnið. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort að Brontosaurus fái að halda nafninu til frambúðar en deilur standa víst enn yfir, samkvæmt umfjöllun Popsci um málið.