Thailand Tiger Temple-4

Í Ratchaburi héraði Tælands hefur vinsæll ferðamannastaður, Tiger temple, verið rekinn síðan árið 1994. Þar hefur ferðamönnum gefist kostur á því að sjá tígrisdýr í návígi, klappa þeim og taka myndir með þessum tignarlegu dýrum. Tiger temple hefur verið umdeilt í fjölda ára og hafa dýraverndunarsinnar bent á að aðstæðurnar sem dýrin búa við séu langt frá því að vera ásættanlegar. Nú hefur þessum vinsæla feðamannastað loksins verið lokað.

Tiger temple hefur alltaf gefið sig út fyrir að vinna að verndun tígrisdýra og sagst bera hag dýranna í brjósti. Því miður er rauninn önnur. Í byrjun febrúar birti One Green Planet frétt þess efnis að Care for the Wild International hafi rannsakað Tiger temple með leynilegum heimsóknum. Heimsóknirnar staðfestu að ekki væri allt með felldu en til dæmis voru dýrin látin eyða miklum tíma úti í gríðarlegum hita og geymd í litlum búrum svo klukkutímum skipti. Auk þess voru tígrisdýr ræktuð á staðnum og hvolparnir teknir of snemma frá mæðrum sínum. Hvolparnir voru síðan beittir hörku til þess að þeir yrðu undirgefnir mönnum. Til að bæta gráu ofan á svart er talið að Tiger temple hafi stundað það að selja eldri dýr, sem ekki voru not fyrir lengur, ólöglega.

Nú hefur Tiger temple loksins verið lokað af Thailand Department of National Parks (DNP) og verða öll dýrin fjarlægð fyrir lok mánaðrins. Ekki er fyllilega ljóst hvað mun verða um tígrisdýrin en samkvæmt frétt Thai Visa News er verið að undirbúa það að öll dýrin verði flutt á öruggan stað.

Tiger temple er því miður ekki einsdæmi og má finna fjölmarga staðir um allan heim sem ganga út á að fá ferðamenn til að borga fyrir það að komast í návígi við villt dýr. Yfirleitt búa þessi dýr við slæmar aðstæður og því skiptir miklu máli að ferðamenn séu vakandi og sniðgangi staði þar sem slíkt fer fram, enda er ekki hægt að reka ferðamannastað sem enginn heimsækir.