Mynd: abc
Mynd: Reuters

Ferðamannastaðurinn Tiger Temple í Tælandi hefur verið mikið gagnrýndur í gegnum árin. Í Tiger Temple gefst ferðamönnum tækifæri á á gefa tígrisdýrum að éta, klappa þeim og jafnvel taka mynd með þeim. Þó það sé vissulega spennandi að komast í návígi við þessi sjaldgæfu kattardýr hefur lengi verið talið að ekki sé allt með felldu hvað varðar velferð tígrisdýranna.

Fyrir rúmu ári síðan var tilkynnt að Tiger Temple hefði verið lokað af Thailand Department of National Parks. Til stóð að fjarlægja dýrin og koma þeim á betri stað en það gekk ekki eftir þar sem að ekki var til staðar dómsúrskurður. Starfsemin hefur því fengið að halda áfram óbreytt þar til í þessari viku.

Að því er kemur fram á vefsíðu BBC hefur Thailand Department of National Parks loks fengið heimild frá dómstólum þar í landi til að fjarlægja dýrin í Tiger Temple með valdi og hefur sú vinna hafist. Á mánudag voru fyrstu þrjú tígrisdýrin af 137 fjarlægð og munu um 1.000 manns aðstoða við að koma þeim dýrum sem eftir á betri stað.

Tiger Temple er rekið af hópi af munkum sem neita sök. Munkarnir reyndu í fyrstu að koma í veg fyrir aðgerðirnar en gáfu eftir þegar sýnt var fram á að dómsúrskurður væri til staðar.

Að sögn yfirvalda verður tígrisdýrunum komið í dýraathvörf.