Mynd: Alex Walsh / WWF
Mynd: Alex Walsh / WWF

Loksins góðar fréttir úr heimi dýranna! Það er ekki oft sem við lesum jákvæðar fréttir af villtum og fallegum dýrum, alltof oft rata þau í fréttirnar vegna hættu þeirra á að deyja út. En einhvern tíman er allt fyrst og fyrir þá sem þurfa á jákvæðum fréttum að halda, þá endilega haldið áfram lesa. Fyrir hina sem nú þegar eru í góðu skapi, endilega haldið áfram að lesa líka, góða skapið mun sennilega aukast.

Nýjustu talningar á tígrisdýrum í heiminum gefa til kynna að dýrin telji nú hátt í 3900 dýr, en þeim hefur fjölgað úr 3200 dýrum síðan síðast var talið árið 2010. Helstu fjölgunina má finna í Indlandi, Rússlandi, Nepal og Bútan. World Wildlife Fund (WWF), samtök sem beita sér fyrir verndun villtra dýra, hafa um áraraðir unnið að því að opna augu almennings og stjórnvalda fyrir þeirru hættu sem tígrisdýr standa frammi fyrir. Nú virðast þau loks vera að sjá árangur erfiðis síns.

Þennan árangur má að miklum hluta þakka viðleitni yfirvalda til að fordæma veiðiþjófnað sem og aukinni vitundarvakningu almennings um að sniðganga dýraafurðir af dýrum í hættu. Það skiptir nefnilega máli að allir taki sig saman um að hafna viðskiptum með varning sem kemur af dýrum í útrýmingarhættu.

Þó hér sé um góðan árangur að ræða þá er enn langt í land, það er ekki nema rétt rúm öld síðan tígrisdýr um heiminn töldu u.þ.b. 100.000 dýr. En þessar nýjustu tölur sýna þó að ef allir leggja sitt af mörkum, almenningur með því að sniðganga tígrisdýraafurðir og stjórnvöld með því að herða eftirlit með veiðiþjófnaði, þá er raunverulegur möguleiki að snúa þróun stofnsins til betri vegar.