Mynd: Bigstock
Mynd: Bigstock

Samkvæmt niðurstöðum skýrslu frá Bloomberg New Energy Finance styttist í að jarðefnaeldsneyti tapi sessi sínum sem mest notuðu orkugjafar heims. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að vind- og sólarorka verði ódýrari en kol og gas árið 2027.

Niðurstöðurnar benda til þess að hápunkti í notkun jarðefnaeldsneyta verði náð árið 2025 en eftir þann tíma er talið að notkunin muni byrja að minnka.

Á næstu 25 árum telur rannsóknarhópurinn að 11,4 trilljónir Bandaríkjadala verði varið í nýjar orkugjafa, þar af muni um tveir þriðju fara í endurnýjanlega orkugjafa og þá sérstaklega vind- og sólarorku.

Hvað varðar verð á orkugjöfum er búist við því að verð á jarðefnaeldsneyti haldist lágt og að vind- og sólarorka lækki hratt í verði.

Að lokum telja höfundar skýrslunnar að árið 2040 gætu rafbílar verið orðnir 25% af bílaflota heimsins og að 60% afkastagetu verði samsett úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Fréttirnar eru þó ekki eingöngu góðar. Þrátt fyrir þessar spár segja höfundarnir að þetta dugi ekki til til að halda hlýnun jarðar undir 2 gráðum. Mun meiri fjármuni þurfi til að það verði að veruleika.

Vert er að benda á að einungis er um spár að ræða, ekki er útséð með hvað framtíðin ber í skauti sér. Það verð þó í það minnsta að teljast jákvætt að þróunin sé í átt að aukinni notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.