brigde-691466_1280

Slæm loftgæði er vandamál sem snertir borgarbúa um allan heim. Gróðursetning trjáa og græn svæði í borgum er ein aðferð sem notuð hefur verið til að berjast gegn mengun og hefur bandarísk rannsókn nú sýnt fram á að hún skilar árangri.

Í rannsókninni var notkun trjáa í 245 borgum víðsvegar um heiminn borin saman við notkun annarra aðferða til að bæta loftgæði og kom í ljós að í kringum tré minnkaði svifryk um 7-24%. Auk þess að minnka svifryk hafa tré áhrif á hitastigið í kringum sig og kom í ljós að hitastig í kringum tré var allt að 2°C lægri en þar sem tré var ekki að finna.

Tré eru þó ekki hentug lausn við allar aðstæður þar sem að þau geta undir sumum kringumstæðum hamlað flæði lofts, til dæmis á götum þar sem umferð er mikil. Þannig getur mengun safnast saman á ákveðnum svæðum og í raun aukið mengunarvandann staðbundið. Rannsóknarhópurinn bendir í því samhengi á að mikilvægt sé að hugað sé vel að því hvar trjám er komið fyrir svo þau nýtist sem best.

Þrátt fyrir að gróðursetning trjáa sé ekki lausn allra vandamála geta þau hjálpað til við að bæta loftgæði, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Höfundar greinarinnar komust að þeirri niðurstöðu að með því að eyða því sem samsvarar $4 á íbúa á ári í gróðursetningu trjáa væri hægt að koma í veg fyrir 11-36 þúsund dauðsfalla á ári vegna sjúkdóma tengda mengun. Að auki mætti ætla að læknisheimsóknum myndi fækka með tilheyrandi sparnaði í heilbrigðiskerfinu.

Dr Rob McDonald, einn höfundur skýrslunnar, sagði í samtali við BBC að eitt markmið skýrslunnar hafi verið að benda á aðskilnað stofnana sem sjá um skipulagsmál borga og heilbrigðiskerfisins. Hann bendir á að mikilvægt sé að slíkar stofnanir vinni saman að lausnum sem hagnast öllum borgarbúum fremur en að hver sé að vinna í sínu horni.

Rannsóknin var framkvæmd af The Nature Conservancy og má nálgast niðurstöður hennar hér.