Mynd: Magic for walls
Mynd: Magic for walls

Tré eru alltaf kyrr á sama stað, þau hreyfa sig ekki mikið og mörgum gæti dottið í hug að líf þeirra væri jafnvel pínu leiðigjarnt. En hvað geta tré gert til að stytta sér stundir, geta tré til dæmis sofið?

Rannsókn sem vísindahópar í Austurríki, Finnlandi og Ungverjalandi tóku þátt í, bendir til þess að tré sofi á nóttunni. Til að mæla þetta var fylgst með tveimur trjám, einu í Finnlandi og einu í Austurríki. Þegar hér er talað um að fylgjast með trjám þá er vísað í mjög nákvæma leysi-tækni sem nemur minnstu hreyfingu. Með þessari tækni gátu vísindahóparnir mælt hreyfingar trjánna allan sólarhringinn.

Í ljós kom að á nóttunni þá drógu trén sig saman, eða minnkuðu, um allt að 10 cm. Þessi hreyfing er ekki ósvipuð þeirri sem við sjáum blóm til dæmis gera á nóttunni þar sem þau lokast og opnast svo að nýju þegar dagur rennur. Við sólarupprás hófu trén einmitt að hreyfa sig og rétta úr sér á ný.

Það er þess vegna kannski bara ansi gott letilíf að vera tré, maður getur meira að segja lagt sig og allt.