Mynd: Said Khamis
Mynd: Said Khamis

Tveir kínverskir karlmenn voru nýlega dæmdir í 30 ára fangelsi fyrir veiðiþjófnað í Tansaníu. Mennirnir áttu 706 skögultennur úr fílum að því er kemur fram á vefsíðu ScienceAlert og er talið að þeir hafi veitt í það minnsta 226 fíla.

Mennirnir, Xu Fujie og Huang Gin, komu til Tansaníu undir því yfirskini að vera hvítlauks- og sjávarafurðainnflytjendur árið 2010. Þeir voru handteknir árið 2013 þegar hundruðir skögultanna fundust faldar í hvítlaukspokum í þeirra eigu.

Þeir Fujie og Gin eiga yfir höfði sér 30 ára fangelsisdóm nema þeir greiði 25 milljón bandaríkadali. Að sögn lögfræðings mannanna munu þeir áfrýja dómnum í þeirri von að hann verði felldur niður en ólíklegt er talið að það takist.

Á árunum 2009 til 2014 hefur fílastofn Tanzaníu farið úr 110.000 dýrum í um 43.000 sem er um 60% hrun. Því er veiðiþjófnaður af þessu tagi litinn sérstaklega alvarlegum augum en fyrir utan mikilvægi fílastofnsins í vistkerfinu er hann mikilvægur liður hagkerfi landsins sem reiðir sig að mikilu leiti á ferðamennsku tengda villtum dýrum.