coral reef

Í manninum er kynákvörðunarferlið tiltölulega einfalt, ef Y-litningu er til staðar fær einstaklingur karlkyns kynfæri, ef enginn Y-litningur er til staðar fær einstaklingurinn kvenkyns kynfæri. Svona er kerfið með nokkrum undantekningum og blæbrigðamun. Þó mennirnir séu vanir kynlitningnum og því fyrirkomulagi sem fylgir þeim þá eru ekki allar dýrategundir sem hafa svona klippt og skorin kerfi til að ákvarða kyn.

Mörg dýr, meðal annars skriðdýr og fiskar, reiða sig á hitastig til að ákvarða kyn einstaklinga. Það þýðir að hitastigið sem fóstrin þroskast við ræður því hvaða kyn verður til. Vegna þess að dýrin lifa yfirleitt við sama hitastig er útkoman að jafnaði þannig hlutföll kynjanna haldast stöðug. Með hlýnun jarðar er þetta jafnvægi þó að raskast og nú virðist halla á kvendýrin sem síður verða til við hærra hitastig. Það að færri kvendýr fæðist í hverri kynslóð leiðir til hnignunar tegundanna vegna þess að færri kvendýr verpa eggjum eða hrygna auk þess sem blöndun erfðaefnis minnkar vegna þess að færri einstaklingar eru til að æxlast við.

Vísindamenn við University of Technology í Sydney hafa nú sýnt fram á að með aðlögun geta fiskar sem lifa við kóralrif snúið þessum skökku kynjahlutföllum við. Fiskar sem lifa við u.þ.b. 1,5°C hækkun á hitastigi, alla ævi í 2 kynslóðir hafa náð að aðlagast breytingunni svo kynjahlutföllin leiðréttast. Í þessari sömu rannsókn kom einnig fram að við hækkun um 3°C leiðréttist breytingin aðeins að hluta svo takmörk eru á því hversu hratt eða hversu mikið dýr geta aðlagast hitastigsbreytingum.

Rannsóknarniðurstöðurnar eru mikilvæg viðbót við þekkingu okkar á viðbrögðum dýra við hnattrænni hlýnun og til að spá fyrir um hvaða afleiðingar hún mun hafa á lífríkið. Rannsóknin birtist í Global Change Biology og er aðgengileg hér.