rhesus-monkey-macaque

Það eru ekki bara afkvæmi manna sem eru mömmu- eða pabbabörn samkvæmt nýrri rannsókna á rhesus öpum (Macaca mulatta).

Á ákveðnu þroskastigi kjósa ungu aparnir að eyða tíma sínum með feðrum sínum, að því er talið til þess að undirbúa sig undir flökkulífið sem bíður þeirra. Niðurstöður greinarinnar, sem birt var í American Journal of Primatology, eru þær fyrstu sem sýna fram á að prímatar velji það að tengjast meðlimum hópsins af sama kyni áður en þeir yfirgefa hann.

Í rannsókninni var fylgst með hópi rhesus apa á eyjunni Cayo Santiago við Puerto Rico. Stofninn á eyjunni hefur verið rannsakaður í um 75 ár og því var auðvelt fyrir rannsóknarhópinn að þekkja einstaklinga innan hópsins í sundur, greina með hverjum þeir eyddu mestum tíma og hvernig þeir voru skyldir.

Í ljós kom að ungir apar fengu jöfn tækifæri á því að eyða tíma með báðum kynjum. Yngstu aparnir eyddu mestum tíma með móður sinni og skyldmennum hennar. Þegar aparnir byrjuðu að vaxa úr grasi tók rannsóknarhópurinn eftir því að karlkynsapar urðu miklir pabbastrákar. Flest félagsleg samskipti þeirra voru með feðrum sínum og skyldmennum þeirra og eyddu ungu aparnir miklum tíma í að snyrta þá og öfugt.

Ekki er vitað af hverju þessi hegðun kemur í ljós eftir kynþroska en út frá því að karlkyns rhesus apar eru reknir úr hópnum af hæst setta karldýrinu er ein tilgátan sú er að það að eyða miklum tíma með karlkyns öpunum hjálpi ungum öpum að undirbúa sig fyrir það að verða fullorðnir. Önnur ástæða gæti verið að ferlið hjálpi þeim hreinlega að tengjast öðrum karldýrum sem koma til með að yfirgefa hópinn á svipuðum tíma.