Rhino

Nashyrningahorn eru mjög eftirsótt vara í Kína og Víetnam en íbúar þessara landa telja hornin geyma lækninamátt. Hornin eru svo vinsæl að dýrategundin er á barmi útdauða, þar sem veiðuþjófar svífast einskis til þess eins að ná hornunum af skepnunum. En þar gæti tæknin komið okkur til bjargar.

Fyrirtæki að nafni Pembient hefur nú náð að framleiða prótínið sem byggir hornin, en þau eru aðallega gerð úr ákveðinni gerð að keratíni. Keratínið er framleitt í hraðvaxandi lífverum á borð við bakteríur og síðan er prótínið notað í þrívíddarprentun. Þannig verður til nashyrningahorn, með hjálp líftækninnar og tölvutækninnar, sem hefur sömu efnafræðilegu eiginleika sem og byggingareiginleika, og ekta nashyrningahorn.

Verði slík framleiðsla á nashyrningahornum framkvæmd eru miklar líkur á að fólk sem telur nauðsynlegt að nýta hornin kjósi frekar að kaupa hornin úr prentaranum þar sem þau eru töluvert ódýrari en ekta nashyrningahorn. Þannig gætu sparast þónokkur nashyrningalíf.

Aðrir eru þó ekki á sama máli um að framboð nashyrningahorna sem framleidd eru með þessum hætti verði jafn vinsæl og vonir standa til og telja þeir að slíkar aðgerðir geri ekta nashyrningahorn jafnvel enn eftirsóknarverðari. Kannanir sem gerðar hafa verið meðal kaupanda nashyrningahornanna segja þó að a.m.k. 45% kaupanda myndu skipta yfir í framleidd nashyrningahorn væri þau í boði.

Þess ber að geta í lokin að enginn vísindalegur rökstuðningur liggur að baki því að nota hornin til lækninga og að öllum líkindum eru þeir nashyrningar sem láta lífið fyrir tilstilli veiðiþjófa, ekki að bjarga mannslífum, auka frjósemi þeirra eða gera nokkuð annað sem hornin eiga að gera.

Fjallað er um málið á síðu Australian Popular Science