Verslun á netinu færist sífellt í aukana. Vefsíður á borð við ASOS og Amazon bjóða upp á einfalda og jafnframt fljótlega leið til að fá nánast hvaða vöru sem hugurinn girnist heim að dyrum. Þessi munaður er þó ekki að kostnaðarlausu fyrir umhverfið. Að því ósögðu hver aukin neysluhyggja almennt hefur á umhverfið eru þær leiðir sem pakkarnir okkar berast oft síður en svo umhverfisvænir.

Flugferðir dýrkeyptar fyrir umhverfið

Þegar kemur að kolefnisfótspori einstaklinga eru flugferðir ein af þeim fjórum þáttum sem eru hvað veigamestir. Að fluginu undanskyldu eru áhrifaríkustu leiðirnar fyrir einstaklinga að draga úr kolefnisfótspori sínu plöntumiðað mataræði sem dregur úr kolefnisfótspori einstaklinga um það sem nemur 0,8 tonn af koltvísýringi á ári, lifa bíllausum lífstíl (fjögur tonn á ári) og það að eignast einu færra barn (58,6 tonn á ári).

Hver flugferð fram og tilbaka yfir Atlantshafið jafngildir um 1,6 tonnum af koltvísýringi sem bætist við kolefnisfótspor viðkomandi. Það að láta senda sér kjól fyrir árshátíðina erlendis frá er því langt frá því að vera umhverfisvænn kostur.

Út frá þessum tölum má ætla að einstaklingur á Íslandi sem pantar sé fatnað á netinu fimm sinnum á ári sé í raun að bæta við kolefnisfótspor sitt því sem nemur fimm flugferðum.

Flestir ferðamátar menga

Vandinn einskorðast ekki við vörur sem sendar eru með flugi. Vörur sem fluttar eru með öðrum farartækjum sem nýta óendurnýjanlega orkugjafa hafa einnig slæm áhrif á umhverfið með útblæstri sínum.

Umhverfismeðvitund fyrirtækja færist í aukana

Besta lausnin á þessum vanda fyrir umhverfið er að sjálfsögðu sú að hætta alfarið eða draga mikið úr verslun á netinu. Það er þó síður en svo raunhæft að ætla að heimsbyggðin hætti skyndilega að nýta sér slíka þjónustu.

Sem betur fer fyrir þá sem treysta á verslun á netinu eru til leiðir til að halda henni áfram með betri samvisku. Ein þeirra er að styðja fyrirtæki sem setja umhverfismál í forgrunn, ekki aðeins í framleiðslu vörunnar sjálfrar heldur einnig þegar kemur að því að koma vörunni á áfangastað.

Í dag er lítið um fyrirtæki sem leggja áherslu á að nýta vistvænar leiðir til að koma vörum á milli landa. Stjórnendur fyrirtækja eru þó sífellt að verða meðvitaðri um umhverfisáhrif sín, ekki síst vegna þrýstings frá neytendum.

Breytingar á þessu sviði hafa nú þegar farið af stað. Á Bretlandi hafa fyrirtæki á borð við Royal Mail  byrjað að notast við farartæki sem drifin eru á umhverfisvænan máta, svo sem rafmagnshjól, til að koma pósti til viðskiptavina.

Einn stærsti vandinn liggur þó í flugsamgöngum þar sem að enn sem komið er eru ekki til vistvænar flugsamgöngur. Þar til það breytist er ein lausn á þeim vanda að fyrirtæki kolefnisjafni hverja flugferð á einn eða annan hátt.

Stjórnvalda og verslana að finna lausnir á vandanum

Þó framtak einstaklinga á sviði umhverfisverndar sé mikilvægur liður í því að sporna gegn hlýnun jarðar er áhrifaríkast að stjórnvöld um allan heim setji umhverfismál í forgang og vinni að lausnum. Að auki er liður verslananna sjálfra mikilvægur, það er að þau nýti sér umhverfisvænni leiðir til að flytja vörur til viðskiptavina og kolefnisjafni óumhverfisvænar flutningsleiðir eins og kostur eru á.

Þangað til það gerist má þó ekki vanmeta mikilvægi þess að hugsa sig tvisvar um áður en ýtt er á “kaupa” hnappinn.

Greinin birtist fyrst prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.