Hvaða dýr hoppar fyrst uppí hugann þegar þú ert spurð/ur að því hvaða dýr er fallegast, krúttlegast eða áhugaverðast? Samkvæmt rannsókn sem unnin var við Oregano State University er líklegt að dýrið sem kemur uppí hugann sé í útrýmingarhættu og þú gerir þér ekki grein fyrir því.

Í rannsókninni var viðhorf fólks til dýra kannað með spurningalista, könnun á netinu eða notkun vefsíða dýragarða. Úrtakið var því nokkuð stórt, en spurningalistunum og könnunum var svarað af um 5000 manns. Útfrá gögnunum valdi rannsóknarhópurinn þau 10 dýr sem nutu mestra vinsælda meðal manna. Listann fylla tegundir sem hafa á síðastliðnum árum tekið krappar dýfur í fjölda og útbreiðslu.

Sum dýranna sem hér eru talin upp geyma fleiri en eina tegund, en í spurningalistunum var ekki gerður greinamunur þar á. Því má segja að þó listinn telji 10 dýr þá endurspeglar hann 13 eða fleiri tegundir.

Svona lítur vinsældarlistinn út:

1. Tígrisdýr – í dag er stofninn um 7% af því sem hann var þegar hann var stærstur.
2. Ljón – fækkun einstaklinga er misjöfn eftir landsvæðum en á heildina er fjöldi dýra um 8% af því sem mest hefur verið.
3. Fíll – hefur fækkað gríðarlega, mismikið eftir því um hvaða tegund er að ræða en dýrin eru gjarnan veidd til að ná af þeim tönnunum.
4. Gíraffi – já, gíraffar eru líka í útrýmingahættu. Nýlega uppgötvaðist að gíraffar telja líklega um 3-4 tegundir sem þýðir að hver tegund telur mun færri einstaklinga en áður var talið.
5. Hlébarði – finnst ennþá víða, en vistkerfi hans á undir högg að sækja vegna ágangs frá manninum og því eru sumar undirtegundir komnar niður í hættulega lágt hlutfall samanborið við sögu tegundarinnar.
6. Panda – talið er að minna en 2000 einstaklingar séu til af pöndum.
7. Blettatígur – telur núna um 9% af því sem stofninn var þegar hann var stærstur, í Afríku. Dreifing dýrsins er misjöfn eftir heimsálfum.
8. Ísbjörn – þennan þekkjum við vel, enda nágranni okkar, þó kannski ekki mikið lengur.
9. Úlfur – er eina dýrið á listanum sem ekki er á válista.
10. Górilla – að minnsta kosti tvær af fjórum undirtegundum górilla telja aðeins um nokkur hundruð einstaklinga.

Samkvæmt útkomu spurningalistanna má sjá að þegar dýr eru mikið notuð í fjölmiðlum svo sem í auglýsingaskyni eða annað slíkt þá gefur það einhvern veginn þá ranghugmynd að þessi dýr telji fjöldan allan af einstaklingum og eru því ekki í útrýmingahættu. Þannig má segja að vinsældir dýranna ýti að einhverju leiti undir útrýmingu þeirra.

Hnignun þessara stofna hefur í mörgum tilfellum verið tengd við veiðiþjófnað eða annan ágang mannanna sem stundum má rekja til þess að vinsælt er að berja dýrin augum eða eiga minjagripi af þeim. Það er greinilega ekki alltaf tekið út með sældinni að vera vinsæll, en það er klárlega á ábyrgð okkar mannanna að koma þeim skilaboðum á framfæri að þessi dýr, ásamt fjölda annarra, þurfa á verndun að halda.