Nú þegar hátíðirnar fara að nálgast verður hið skemmtilega fyrirbæri glimmer meira áberandi. Þó glimmer virðist í fyrstu saklaust hafa vísindamenn í Bretlandi áhyggjur af áhrifum þess á umhverfið. Flest glimmer í raun ekkert annað en plastagnir sem einmitt á að banna þar í landi á næsta ári. Hópur vísindamanna hvetur því til þess að glimmer sem inniheldur plast verði einnig bannað.

Plastagnir eru eins og nafnið gefur til kynna, örsmátt plast sem mælist minna en fimm millimetrar í lengd. Sýnt hefur verið fram á að plastagnir geti haft víðtæk áhrif í náttúrunni, til dæmis éta ýmis sjávardýr plastið sem getur síðan safnast upp í líkömum þeirra. Í tilfelli nytjadýra á borð við fiska getur plastið síðan endað í meltingavegi okkar manna þar sem það er að hluta til tekið upp í blóðrásina. Að svo stöddu er lítið vitað um það hvaða áhrif plastagnir í blóðrás hafa á heilsu okkar en niðurstöður rannsókna benda til þess að það gæti haft truflandi áhrif á hormón í líkömum manna og dýra.

Plastagnir er meðal annars að finna í fjölda snyrtivara og eiga þær þaðan greiða leið í hafið í gegnum frárennsli heimila. Vegna umhverfisáhrifa plastagna hafa bæði Bretland og Bandríkin ákveðið bannað notkun plastagna í snyrtivörum og má ætla að fleiri lönd fylgi í kjölfarið. Nú eru vísindamenn farnir að beina sjónum sínum að glimmerinu sem lítil umræða hefur verið um hingað til.

Glimmer finnst líkt og plastagnir í ýmsum snyrtivörum og ratar því sömuleiðis út í hafið þar sem að fiskar og önnur sjávardýr geta innbyrt það. Vegna þessa hvetja vísindamenn í Bretlandi til þess að glimmer sem inniheldur plast sé bannað af sömu ástæðum og plastagnir.

Aðdáendur glimmers þurfa þó ekki að örvænta því til er umhverfisvænt glimmer sem brotnar hratt niður í náttúrunni og má nefna að snyrtivörufyrirtækið Lush í Bretlandi hefur skipt út hefðbundnu glimmeri fyrir umhverfisvænt í vörum sínum.