Mynd: Carolyn Box
Mynd: Carolyn Box

Á undanförnum árum hefur orðið vitundavakning hvað varðar notkun plastagna í snyrtivörum. Þessar örsmáu plastagnir hafa nefnilega slæm áhrif á umhverfið. Nú vill hópur vísindamanna banna notkun þeirra í snyrtivörum til að vernda lífríki hafsins og sporna gegn áhrifum þeirra á drykkjarvatn. Grein þess efnis var birt í tímaritinu Environmental Science and Technology og var samstarfs vísindamanna frá sjö stofnunum í Bandaríkjunum, meðal annars Oregon State University, Society for Conservation Biology og University of California.

Plastagnir er að finna í fjölmörgum snyrtivörum til dæmis tannkremi, sápu og adlitsskrúbbum. Eftir að plastögnunum er skolað ofan í vaskinn berast þær úr lögnum í ár, vötn og hafið þar sem þær safnast fyrir og eru meðal annars innbyrgðar af lífverum.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið af plastögnum safnast fyrir í náttúrunni en í vísindamennirnir áætla að magnið í Bandaríkjunum sé allavega 8 billjón plastagna á dag. Til að setja töluna í samhengi eru það nógu margar plastagnir til að þekja fleiri en 300 tennisvelli.

Þar með er ekki öll sagan sögð en það magn sem safnast saman í ám, vötnum og hafi er aðeins um 1% allra plastagna sem skolast niður í vaskin. Hin 99% safnast fyrir í leðjunni sem myndast í skólpi og er oft dreift um þurrlendi og berast að lokum út í sjó.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að plastagnir geta borið eiturefni í dýr og telja vísindamennirnir að nú sé komið nóg. Nú þegar hafa plastagnir verið bannaðar í sumum fylkjum Bandaríkjanna en rannsóknarhópurinn telur að tími sé til kominn að banna agnirnar alfarið, enda er áhættan mikil eða lausnin einföld.

Tengd frétt: Plastagnir í snyrtivörum