Mynd: Siberian Times
Mynd: Siberian Times

Hvatinn sagði frá því fyrir tveimur árum að undarlegir gígar hefðu fundist á Yamal skaga í norðurhluta Síberíu. Á þeim tíma höfðu fjórir slíkir gígar komið í ljós og orsök þeirra frekar óljós.

Nýverið greindi Siberian Times frá niðurstöðum vísindahóps sem hefur unnið á svæðinu. Þar kemur fram að fleiri gígar, eða allt 7000 slíkir, geti myndast þá og þegar á svæðinu. Samkvæmt vísindahópnum má að öllum líkindum rekja tilurð gíganna til hlýnunar jarðar. Í þessum hluta Síberíu er nefnilega sífreri. Það þýðir að undir þunnu yfirborði gróðurs er alltaf frosin jörð. Síðastliðin sumur hafa þó verið óvenju hlý á þessum slóðum sem líklega leiðir til þess að sífrerinn er að gefa undan.

Þegar frostið minnkar losna úr jarðveginum alls kyns efni, þ.m.t. metan-gas. Telur vísindahópurinn að þarna sé um að ræða uppsöfnun á gasinu og annarra lofttegunda sem munu að öllum líkindum mynda svo mikinn þrýsting að úr verður sprenging. Jarðvegurinn mun þá rifna utan af gasblöðrunni og eftir stendur risavaxinn gígur.

Niðurstöðurnar hafa enn ekki verið birtar í ritrýndu tímariti, en það verður forvitnilegt að sjá hversu vel vísindahópnum hefir tekist að skilgreina þetta furðulega fyrirbæri. Vitað er að gígar sem nú þegar hafa myndast seita frá sér umtalsverðu magni af metan-gasi sem og koldíoxíði.

Fyrir utan þá hættu sem stafar af þessum náttúru-sprengjum fyrir íbúa svæðisins er mjög líklegt að áframhaldandi losun gastegunda frá jarðveginum muni ýta undir frekari myndun slíkra fyrirbæra. Hækkandi hitastig jarðar er nefnilega að öllum líkindum helsta orsök þess að fyrirbærið myndast.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá litla ósprungna gas-blöðru sem fannst á Yamal skaganum.