Mynd: Pascal Guyot/AFP/Getty Images
Mynd: Pascal Guyot/AFP/Getty Images

Nýverið hófust prófanir á bóluefni gegn ebólu í Gíneu og voru fyrstu niðurstöður þeirra birtar í tímaritinu The Lancet. Í ljós kom að bóuefnið virkaði í 100% tilfella en þetta er í fyrsta skipti sem að sýnt er fram á að bóluefni geti varið menn gegn sjúkdómnum.

Tækni sem kallast “hring” bólusetning var notuð til að prófa bóluefnið. Tæknin virkar þannig að þegar einstaklingur greinist með sjúkdóminn eru fjölskylda og vinir bólusettir til þess að reyna að stöðva útbreiðslu. Um 4.000 manns tóku þátt í prófununum og reyndist virknin vera 100%. Ekki er þó víst að bóluefnið virki jafn vel þegar það verður prófað á stærri hóp fólks en áætlað er að virknin gæti farið niður í 75%.

Í rannsóknum er yfirleitt notast við samanburðarhóp sem fær lyfleysu en í þessu tilfelli var það metið svo að það væri ekki siðferðislega rétt. í staðin var farið þá leið að einn hópur fékk bólusetningu fljótlega eftir að skyldmenni greindist en hinn hópurinn beið í þrjár vikur áður en bólusett var. Í fyrri hópnum greindist enginn með ebólu en í þeim seinni voru 16 sem greindust með sjúkdóminn. Vegna þess hversu vel bóluefnið reyndist virka munu allir þátttakendur fá bóluefnið strax í næstu prófunum.

Næstu skref eru að prófa bóluefnið á unglingum og börnum, en í rannsókninni voru það aðeins fullorðnir einstaklingar sem fengu bóluefnið. Einnig var virkni bóluefnisins aðeins könnuð í þrjár vikur eftir bólusetningu og munu vísindamenn nú reyna að komast að því hversu lengi það virkar.

Lesið næst: Þunglyndislyf læknar ebólu