Mynd: S Conway Morris / Jian Han
Mynd: S Conway Morris / Jian Han

Vísindamenn í Kína lýstu nýlega fornri tegund sem er elsta dæmið um síðmynninga (e. deuterostome) sem fundist hefur. Tegundin er talin vera forfaðir manna og allra annarra hryggdýra.

Steingervingur af einstaklingi tegundarinnar fannst í Mið-Kína og var hann rannsakaður af vísindamönnum frá Kína, Bretlandi og Þýskalandi. Niðurstöður þeirra voru birtar í tímaritinu Nature.

Þessi forna tegund hefur fengið heitið Saccorhytus og var aðeins um millímetri að lengd. Líkt og mannfólk og önnur hryggdýr var tegundin samhverf í byggingu en talið er að hún hafi lifað á sjávarbotni fyrir um það bil 540 milljón árum síðan.

Steingervingurinn var afar vel varðveittur og gátu vísindamenn ekki séð að lífveran hafi haft endaþarm. Niðurstaða rannsóknarhópsins er því sú að Saccorhytus hafi aðeins haft eitt afar stórt líkamsop sem hún bæði tók inn fæðu í gegnum og losaði sig við úrgang úr.

Uppbygging lífverunnar bendir til þess að hún kunni að vera sameiginlegur forfaðir allra síðmynninga sem eru þau dýr sem mynda endaþarm á undan munnopi í fósturþroska. Meðal síðmynninga eru hryggdýr, krossfiskar og sægbjúgu.

Elstu steingervingar síðmynninga sem þekktust fyrir fund Saccorhytus eru taldir vera á bilinu 510-520 milljón ára gamlir. Þessar lífverur voru þegar komnar lengra í þróunarsögunni og vegna þess hversu ólíkar þessar lífverur voru hvor annarri reyndist erfitt fyrir vísindamenn að ákvarða hvernig sameiginlegur forfaðir gæti litið út.

Saccorhytus varpar því einstöku ljósi á fyrstu skref þróunar dýra sem leiddi af sér fiska og síðar hryggdýr.